Í hádeginu í dag var dregið í 16-liða úrslitin í Borgunarbikar karla í knattspyrnu. Ægir í Þorlákshöfn var í pottinum í fyrsta skipti í sögu félagsins.
Ægismenn, sem leika í 3. deildinni, slógu 1. deildarlið Þórs Akureyri úr keppni á útivelli í 32-liða úrslitunum. Ægir fær heimaleik í 16-liða úrslitunum og andstæðingurinn verður Pepsi-deildarlið Víkinga. Ægir og Víkingur hafa einu sinni mæst áður, í bikarkeppninni árið 1998, og þá sigruðu Víkingar 5-3.
Selfyssingar fengu erfitt verkefni en þeir drógust á útivöll gegn Íslandsmeisturum FH. Selfoss sló Kára úr leik í 32-liða úrslitunum. Selfoss og FH hafa aldrei mæst í bikarkeppninni áður, en Selfyssingar léku síðast gegn FH í Pepsi-deildinni 2012.
Leikirnir í 16-liða úrslitunum fara fram um mánaðamótin maí/júní.