Ægir í vondri stöðu

Ægismenn töpuðu 2-1 í kvöld fyrir KFK í baráttunni um 2. sætið í B-riðli 3. deildar karla.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og liðin skiptust á að sækja. Eftir 17 mínútur opnaðist vörn Ægis illa og KFK komst yfir. Fimm mínútum síðar kom annað mark heimamanna en Trausti Friðbertsson náði að klóra í bakkann fyrir Ægi áður en flautað var til leikhlés. Ægismenn sóttu stíft í síðari hálfleik án þess að takast að skora.

„Þetta er ekki góð staða fyrir okkur, við verðum að vinna KFS í lokaumferðinni og treysta á að Þróttur Vogum sigri KFK á sama tíma. Það er samt ágætt að hafa smá spennu í þessu og við erum staðráðnir í að klára leikinn á móti KFS,“ sagði Ársæll Jónsson, fyrirliði Ægis, í samtali við sunnlenska.is í kvöld.

Ársæll lék ekki gegn KFK í kvöld þar sem hann tók út leikbann vegna fjögurra gulra spjalda. Vakti það vonbrigði meðal aðdáenda Ársæls sem fjölmenntu á leikinn til að horfa á Hr. Ægi spila.

Fyrri greinOlga með tvö í 3-0 sigri
Næsta greinMarkalaust á Hvolsvelli