Ægir gerði 1-1 jafntefli við Leikni Fáskrúðsfirði í 2. deild karla í knattspyrnu í gær, á meðan Hamar valtaði yfir Mána, 2-8, í 4. deildinni.
Ægir fékk Leikni F í heimsókn á Þorlákshafnarvöll og þar kom William Daniels heimamönnum yfir eftir aðeins fjögurra mínútna leik. Leiknismenn jöfnuðu á 39. mínútu og mörkin urðu ekki fleiri í leiknum, þrátt fyrir ágætar sóknir beggja liða.
Eftir leikinn er Ægir áfram í 10. sæti deildarinnar, nú með 8 stig.
Stórsigur hjá Hamri
Hamar heimsótti Ungmennafélagið Mána á Hornafjörð og vann stórsigur, 2-8. Staðan var orðin 0-3 eftir fimmtán mínútna leik en þá voru Ágúst Örlaugur Magnússon og Hermann Ármannsson komnir á blað, auk þess sem Mánamenn skoruðu sjálfsmark.
Máni minnkaði muninn í 1-3 á 25. mínútu með marki úr vítaspyrnu, en Ágúst Örlaugur bætti öðru marki sínu við fimm mínútum síðar og staðan var 1-4 í hálfleik.
Hamarsmenn voru sterkari í síðari hálfleik en það var ekki fyrr en á 75. mínútu að fimmta markið kom, og þá opnuðust reyndar allar flóðgáttir. Hermann skoraði annað mark sitt og kom Hamri í 1-5 og á eftir fylgdi þrenna frá Daníel Rögnvaldssyni á tíu mínútna kafla.
Máni minnkaði muninn í 2-8 á 86. mínútu og þar við sat. Hamar er í 3. sæti riðilsins með 12 stig, einu stigi á eftir ÍH, þegar mótið er hálfnað.