Ægismenn fengu skell þegar liðið mætti Njarðvík á útivelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Njarðvíkurvelli urðu 4-1.
Leikurinn byrjaði vægast sagt illa hjá Ægismönnum því Njarðvíkingar voru komnir í 1-0 eftir um það bil 30 sekúndna leik. Jannik Eckenrode var hins vegar fljótur að jafna fyrir Ægi, aðeins þremur mínútum síðar, og fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik.
Aftur fengu Ægismenn mark á sig strax í upphafi síðari hálfleiks. Njarðvíkingar reyndust sterkari í seinni hálfleik og bættu við tveimur mörkum, á 78. og 92. mínútu.
Ægismenn eru á botni 2. deildarinnar, án stiga eftir fjórar umferðir og eru eina liðið sem er stigalaust í deildinni.