Ægismenn eru enn taplausir í B-riðli 3. deildar karla eftir 2-2 jafntefli við Þrótt Vogum í Þorlákshöfn í dag.
Veðrið setti mark sitt nokkuð á leikinn en Trausti Friðbertsson nýtti vindinn vel til að koma Ægi yfir með skoti af löngu færi. Gestirnir jöfnuðu á 45. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.
Ægismenn voru frískir í upphafi seinni hálfleiks og Elvar Þór Bragason kom Ægi í 2-1 með marki úr vítaspyrnu á 55. mínútu. Brotið var á Milan Djurovic í aðdraganda vítaspyrnunnar og vildu Ægismenn sjá rautt spjald fara á loft. Kjartan Björnsson, dómari, geymdi það hins vegar á vísum stað í vasanum.
Allt virtist stefna í að Ægir kæmist í toppsæti riðilsins með sigri þangað til á 95 mínútu leiksins þegar gestirnir náðu að jafna. Mínútu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og Ægismenn gengu svekktir til búningsklefanna.