Ægir náði í sitt annað stig í 2. deild karla í sumar þegar liðið mætti Hetti á Egilsstöðum í dag. KFR fékk Kára í heimsókn í 3. deildinni og tapaði.
Á Egilsstöðum komust Ægismenn yfir strax á 4. mínútu með marki frá Aco Pandurevic. Ægir leiddi 0-1 í hálfleik en heimamenn misnotuðu meðal annars vítaspyrnu í fyrri hálfleik.
Á 62. mínútu jöfnuðu Hattarmenn metin en sjö mínútum síðar kom Magnús Bjarnason Ægi yfir á nýjan leik. Leiknum lauk hins vegar með 2-2 jafntefli því á 74. mínútu jafnaði Höttur metin og þar við sat.
KFR náði forystunni í leiknum gegn Kára á 17. mínútu með marki Bjarka Axelssonar en rúmum tíu mínútum síðar jöfnuðu gestirnir. Staðan var 1-1 í hálfleik og síðar hálfleikur var markalaus allt þar til tvær mínútur voru eftir. Þá náðu Káramenn að tryggja sér 1-2 sigur.
Ægir er í 11. sæti 2. deildarinnar með 2 stig en KFR er á botni 3. deildarinnar með 1 stig.