Ægir tapaði gegn Huginn í 2. deild karla í knattspyrnu í dag og Hamar tapaði gegn Magna í 3. deildinni.
Ægir heimsótti Huginn á Seyðisfjörð og þar komust heimamenn í 2-0 áður en Birgir Magnússon minnkaði muninn fyrir Ægi. Staðan var 2-1 í hálfleik en Huginn bætti við tveimur mörkum í síðari hálfleik og sigraði 4-1.
Ægir er í 8. sæti 2. deildar með 22 stig en Huginn er í 4. sæti með 30 stig og á ennþá möguleika á að komast upp í 1. deildina.
Í Hveragerði tók Hamar á móti Magna í 3. deildinni og þar kom Ingþór Björgvinsson heimamönnum yfir á 28. mínútu. Gestirnir jöfnuðu fjórum mínútum síðar og staðan var 1-1 í hálfleik.
Magnamenn komust yfir strax á 2. mínútu síðari hálfleiks og þeir bættu þriðja markinu við á 76. mínútu, 1-3. Ingþór klóraði hins vegar í bakkann fyrir Hamar í uppbótartíma og lokatölur leiksins urðu 2-3.
Hamar er enn í botnsæti deildarinnar með 7 stig en liðið heldur sæti sínu í deildinni enn sem komið er, á tölfræðinni einni saman.