Ægir skildi Hamar eftir í fallbaráttunni

Ægir lagði Hamar 0-1 í annað sinn í sumar þegar liðin mættust á Grýluvelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Ægismenn geta því andað rólega í bili en Hamar er í slæmri stöðu í fallsæti.

Ægismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og strax á 7. mínútu fékk Darko Matejic frábæra sendingu innfyrir en Björn M. Aðalsteinsson, markvörður Hamars, varði vel frá honum af stuttu færi. Þremur mínútum síðar skall hurð aftur nærri hælum upp við mark Hamars þegar Haukur Már Ólafsson átti óvænt skot að marki úr þröngri stöðu en hitti ekki rammann.

Ægisliðið sótti meira án þess að skapa sér mikið og vörn Ægis átti ekki í neinum vandræðum með ómarkvissan sóknarleik Hamars. Á 26. mínútu átti Ingþór Björgvinsson þó góða sendingu inn á vítateig Ægis þar sem Eiríkur Elvy var í prýðilegri stöðu en rann á blautum vellinum og hitti boltann illa.

Mínútu síðar kom eina mark leiksins. Léleg sending út úr varnarlínu Hamars, Ægismenn náðu boltanum og Arilíus Marteinsson átti góða sendingu inn á Matejic sem skoraði án vandræða af stuttu færi. Strax í næstu sókn gerði Ingþór vel þegar hann vann skallaeinvígi í vítateig Ægis en náði ekki að stýra boltanum sem flaut rétt framhjá marki Ægis.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks kom besta færi Hamars þegar Benjamín Gunnlaugarson renndi boltanum inn á Óskar Haraldsson en á síðustu stundu kom Ægismaðurinn Marteinn Andrason til bjargar, renndi sér á eftir Óskari og tók bæði mann og bolta. Hamarsmenn vildu fá vítaspyrnu í þessu tllviki en Marteinn var á undan Óskari í boltann og ágætur dómari leiksins, Magnús Þórisson, lét leikinn halda áfram.

Staðan var 0-1 í hálfleik en síðari hálfleikur var einn sá tíðindalausasti í sögu sunnlenskrar knattspyrnu. Hamarsmenn voru mun sterkari og rúlluðu boltanum oft vel á milli sín úti á vellinum en komust ekkert áleiðis gegn sterkri vörn Ægis. Hamar átti eitt sæmilegt skot utan af velli og hætta skapaðist í eitt skipti í teig Ægis eftir aukaspyrnu frá Eiríki en annars var ekkert að gerast. Ægismenn lágu til baka og treystu á hraða Matejic og Milan Djurovic í skyndisóknum en sköpunarkrafturinn í Ægisliðinu var enginn og þeir félagar fengu úr litlu að moða í framlínunni, nema fyrir frumkvæði Djurovic.

Leikmenn beggja liða voru duglegir að safna áminningum síðustu 25 mínúturnar en þrjú gul á hvort lið þykir ekki mikið í þýðingarmiklum grannaslag á rennblautum velli og heilt yfir var leikurinn nokkuð drengilega spilaður.

Á síðustu tíu mínútunum opnaðist leikurinn meira en hvorugt lið náði að skapa færi. Björn Hamarsmarkvörður eyddi góðum tíma í sókninni í uppbótartímanum og Ægismenn voru nálægt því að refsa fyrir það en í síðustu sókn leiksins stakk Liam Killa boltanum inn á Matejic sem skaut í tómt markið. Kappinn var hins vegar kolrangstæður og því taldi markið ekki.

Ægismenn eru nú með 17 stig í 9. sæti deildarinnar en Hamar er í 11. sæti með 10 stig þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni.

Fyrri greinJazz-, Jass-, Djass-að í Listasafni Árnesinga
Næsta greinAndleysi í jafntefli við FH