Ægismenn biðu lægri hlut þegar liðið mætti KFS í Vestmannaeyjum í 3. deildinni í dag. Lokatölur voru 5-3.
Ægismenn byrjuðu betur og skoruðu tvö mörk snemma leiks, á 12. og 18. mínútu. Þar voru á ferðinni Ingimar Helgi Finnsson og Arnar Skúli Atlason. Heimamenn svöruðu fyrir sig á 20. mínútu en staðan var 1-2 í hálfleik.
Snemma í síðari hálfleik fékk KFS vítaspyrnu og jöfnuðu þeir metin úr henni. Atli Levý kom Ægi aftur yfir en það voru heimamenn sem áttu síðasta orðið. KFS skoraði tvö mörk með stuttu millibili þegar nokkuð var liðið á síðari hálfleikinn og bættu svo við fimmta markinu í uppbótartíma.
Með sigrinum fór KFS í 2. sæti B-riðils með 10 stig en Ægir er í 4. sæti með 8 stig.