Ægir tapaði í Fagralundi

Eftir stórsigur á KH í síðustu umferð kippti Ýmir Ægismönnum niður á jörðina þegar liðin mættust í B-riðli 3. deildar karla í kvöld. Ýmir sigraði 4-1.

Ýmismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og skoruðu þá tvö mörk. Fyrra markið var slysalegt en sóknarmaður Ýmis slapp innfyrir, Ragnar Daði, markvörður Ægis var á undan í boltann en þrumaði honum í sóknarmanninn og af honum fór boltinn í netið. Skömmu síðar fengu Ýmismenn vítaspyrnu og skoruðu úr henni þannig að staðan var 2-0 í hálfleik.

Ýmir komst í 3-0 snemma í seinni hálfleik og fjórða markið kom skömmu síðar. Ægismenn gáfust þó ekki upp og Eyþór Guðnason minnkaði muninn fyrir þá undir lokin.

Ægir féll niður í 6. sæti riðilsins við tapið og sitja þar með 6 stig að loknum fimm umferðum.

Fyrri grein„Þetta var kannski ekki fallegt”
Næsta greinSkógakortið „Rjóður í kynnum“ komið út