Ægismenn töpuðu fyrir Ými í lokaumferð C-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu í hávaðaroki á Selfossvelli í dag, 0-3.
Gestirnir voru sterkari í leiknum og þeir komust yfir undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 0-1 í hálfleik. Annað mark Ýmis kom strax á upphafsmínútum síðari hálfleiks og þar við sat fram á 88. mínútu að þriðja markið kom eftir skyndisókn.
Ægismenn höfðu þá fært sig framar á völlinn en fátt var um færi hjá Þorlákshafnarliðinu þangað til á lokamínútunum að liðið fékk tvö ágæt færi.
Fyrir leikinn áttu bæði lið möguleika á að komast í úrslitakeppni Lengjubikarsins og Ýmismönnum tókst það með sigrinum. Ægir varð hins vegar í 3. sæti í riðlinum með 5 stig en liðið gerði vann einn leik, gerði tvö jafntefli og tapaði einum.