Óvænt úrslit urðu í 64-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu í kvöld þegar 2. deildarlið Ægis tapaði fyrir 4. deildarliði KFG á útivelli.
KFG komst yfir strax á 5. mínútu leiksins og staðan var 1-0 í hálfleik. Róðurinn þyngdist nokkuð fyrir Ægismenn á 69. mínútu þegar Eiríkur Ari Eiríksson fékk að líta sitt annað gula spjald. KFG bætti svo við öðru marki á 89. mínútu og lokatölur urðu 2-0.
Á morgun eru fleiri bikarleikir hjá sunnlensku liðunum. Stokkseyri og Skallagrímur mætast á JÁVERK-vellinum á Selfossi kl. 14:00 en Gnúpverjar, KFR, Árborg og Hamar eiga öll útileiki. Gnúpverjar mæta Hvíta riddaranum, KFR heimsækir Kóngana, Árborg mætir Augnabliki og Hamar sækir Vatnaliljur heim.