Ægir vann á Egilsstöðum – jafnt hjá Hamri og Sindra

Keppni í 2. deild karla í knattspyrnu hófst í dag og gerðu bæði sunnlensku liðin góða ferð á erfiða útivelli.

Ægir lagði Hött á Fellavelli við Egilsstaði. Haukur Már Ólafsson kom Ægi yfir undir lok fyrri hálfleiks og strax á 4. mínútu síðari hálfleiks bætti Darko Matejic við öðru marki. Þannig stóðu leikar allt fram í uppbótartíma að heimamenn náðu að klóra í bakkann og leiknum lauk með 1-2 sigri Ægis.

Hamar og Sindri skildu jöfn á Sindravöllum í Hornafirði. Fyrri hálfleikur var markalaus en á upphafsmínútum þess síðari komust heimamenn yfir. Forskot þeirra varði þó aðeins í rúmar fimm mínútur því að á 61. mínútu jafnaði Ingþór Björgvinsson metin með marki úr vítaspyrnu og þar við sat.

Fyrri greinGOS orðið fyrirmyndarfélag
Næsta greinNýr og „þroskaðri“ 800Bar opnar í næstu viku