Ægismenn nánast fallnir – KFR sigraði

Ægir misstu unninn leik úr höndunum í 2. deild karla í knattspyrnu í dag, og eru nánast fallnir niður í 3. deild. Þar hafði KFR betur gegn KFS í dag.

Ægir mætti Völsungi á Húsavík en liðin voru bæði í fallhættu fyrir leik. Ægismenn byrjuðu betur og Andri Sigurðsson kom þeim yfir á 22. mínútu. Staðan var 0-1 í hálfleik en á 66. mínútu kom Paul Nicolescu Ægi í 0-2 og útlitið vænlegt fyrir þá gulu.

Lokakafli leiksins var hins vegar ævintýralegur. Guðmundur Garðar Sigfússon, aðstoðarþjálfari Ægis, sagði í samtali við sunnlenska.is að einbeitingarleysi Ægismanna hafi verið algert og við tók átta mínútna kafli sem var sá furðulegasti sem Guðmundur hefur kynnst á sínum langa knattspyrnuferli.

Völsungur minnkaði muninn í 1-2 á 86. mínútu og jöfnuðu síðan metin á fyrstu mínútu uppbótartíma. Þar með var sagan ekki öll því Völsungar bættu við tveimur mörkum til viðbótar í uppbótartímanum og sigruðu 4-2.

Þessi úrslit þýða að Ægismenn eru nánast fallnir. Þeir eru með 18 stig í 11. sæti en þar fyrir ofan er KV með 21 stig. Ægir þarf því að treysta á að KV tapi fyrir Sindra með 5-10 marka mun í lokaumferðinni og á sama tíma þarf Ægir að vinna Magna með 5-10 marka mun.

Lokaumferðin verður spiluð næsta laugardag.

Sex mörk á Hvolsvelli
Á Hvolsvelli mættust KFR og KFS í lokaumferðinni en bæði liðin eru fallin úr 3. deildinni. Przemyslaw Bielawski og Hjörvar Sigurðsson komu KFR í 2-0 á fyrstu átta mínútum leiksins en KFS minnkaði muninn í 2-1 á 12. mínútu.

Þannig stóðu leikar í hálfleik, en KFS jafnaði með marki úr vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik. Rangæingar voru hins vegar staðráðnir í að ná í sigur og Sigurður Benediktsson kom þeim aftur yfir á 70. mínútu. Gunnar Helgason innsiglaði svo 4-2 sigur KFR á 90. mínútu.

KFR lauk keppni í 3. deildinni í 9. sæti með 15 stig, tveimur stigum á eftir Dalvík/Reyni.

Fyrri greinSunnudagsspjall með Erlu
Næsta greinTíunda jafntefli Selfoss