Þóra Þorsteinsdóttir frá Stokkseyri og Bryndís Ólafsdóttir frá Selfossi urðu í 2. og 3. sæti í hinum íslensku Hálandaleikum sem haldnir voru í bæjargarðinum á Selfossi í dag.
Keppnin var æsispennandi í kvennaflokki og munaði aðeins einu stigi á fyrsta og þriðja sæti. Sarah Hilgers frá Bandaríkjunum sigraði með 14 stig en Þóra og Bryndís voru báðar með 15 stig. Þóra var ofar Bryndísi í fleiri greinum og hreppti hún því annað sætið.
Hjá körlunum sigraði Bandaríkjamaðurinn Matt Vincent með 8,5 stig, landi hans Jeremy Gillingham varð annar með 15 stig og Heiðar Geirmundsson þriðji með 23,5 stig. Selfyssingurinn Árni Steinarsson varð í áttunda sæti í sinni fyrstu hálandakeppni.
Keppt var í sjö hefbundnum hálandagreinum; steinakasti með og án atrennu, lóðakasti, sleggjukasti, staurakasti, heybaggakasti og 25 kg lóðakasti yfir rá. Keppnin heppnaðist vel og binda menn vonir við að hún geti orðið árlegur viðburður á Selfossi.