Hamar tapaði fyrir Skallagrím í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Leikurinn var æsispennandi og úrslitin réðust á lokasekúndunni. Gestirnir sigruðu 83-86.
Hamar skoruðu fjögur fyrstu stigin í leiknum en Skallagrímur jafnaði 4-4. Þá sögðu Hamarsmenn bless og leiddu 21-13 eftir 1. leikhluta. Gestirnir skoruðu sex fyrstu stigin í 2. leikhluta en eftir það var jafnræði með liðunum. Skallagrímur jafnaði 31-31 og staðan var 33-39 í hálfleik.
Þegar fjórar mínútur voru liðnar af 3. leikhluta hafði Skallagrímur sjö stiga forystu, 44-51. Þeir skoruðu hins vegar ekki nema tvö stig síðustu sex mínútur leikhlutans á meðan Hamar skoraði þrettán og leiddi að loknum 3. leikhluta, 57-54.
Síðasti leikhlutinn var hnífjafn og æsispennandi. Hamar leiddi 80-79 á lokamínútunni en Skallagrímur svaraði með þriggja stiga körfu og kláraði leikinn í lokin á vítalínunni.
Louie Kirkman var stigahæstur hjá Hamri með 21 stig og 10 fráköst. Halldór Gunnar Jónsson skoraði 12 og Ragnar Á. Nathanaelsson var sömuleiðis með 12 stig og 13 fráköst að auki. Lárus Jónsson skoraði 11 stig, Svavar Páll Pálsson 9, Bjartmar Halldórsson 6, Emil F. Þorvaldsson 5, Björgvin Jóhannesson 5 og Bjarni Rúnar Lárusson 2.
Hamar er í 4. sæti deildarinnar með 12 stig en hefðu með sigri getað jafnað Skallagrím að stigum. Borgnesingar sitja nú í 2. sæti með 16 stig.