Selfoss tók á móti Val í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld í stórskemmtilegum leik við bestu hugsanlegu aðstæður á JÁVERK-vellinum á Selfossi. Heimamenn sigruðu 3-1.
„Seinni hálfleikurinn var mjög góður. Við töpuðum miðjunni í fyrri hálfleik og ræddum það í leikhléinu að við ætluðum að gera miklu betur. Við vorum alls ekki sáttar og við sýndum það í seinni hálfleik þar sem við mættum og ætluðum bara að éta þær,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, hornspyrnusérfræðingur Selfossliðsins, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hún átti fínan leik, eins og allt Selfossliðið, og tvö marka liðsins komu uppúr hættulegum hornspyrnum frá henni, þar sem Dagný Brynjarsdóttir átti skalla að marki.
„Það var sætt að sjá hann inni þegar Dagný kom okkur yfir. Við erum búnar að reyna þessar hornspyrnur oft í sumar og þetta er búið að takast nokkrum sinnum. Við Dagný höfum æft þetta vel, tökum aukaæfingar þar sem við æfum hornspyrnur og föst leikatriði og það er mjög gott að finna hana þarna á fjærstönginni. Það er yfirleitt auðveldast að finna stærsta manninn í teignum,“ sagði Anna María létt að lokum.
Selfossliðið var lakari aðilinn í fyrri hálfleik og gátu þær vínrauðu prísað sig sælar að halda jöfnu í leikhléi, 1-1. Valur hafði yfirhöndina og átti fín færi bæði í upphafi leiks, og tvö dauðafæri undir lok fyrri hálfleiks. Mörkin tvö komu hins vegar bæði af vítapunktinum. Guðmunda Óladóttir kom Selfoss í 1-0 á 15. mínútu eftir að Dagný hafði skallað boltann í höndina á varnarmanni Vals og tíu mínútum síðar jafnaði Mist Edvardsdóttir eftir að Heiðdís Sigurjónsdóttir hafði brotið á Vesnu Elísu Smiljkovic.
Heimakonur voru hins vegar í miklu stuði í upphafi síðari hálfleiks og hófu hann á látlausri sókn í tíu mínútur þar sem hvert dauðafærið rak annað. Dagný átti skot rétt framhjá og annað í stöngina og Mist bjargaði á línu, skoti af örstuttu færi frá Evu Lind Elíasdóttur.
Þegar leið á seinni hálfleikinn róaðist leikurinn nokkuð og þegar áttatíu mínútur voru liðnar virtist hann vera að fjara út og stefna í jafntefli. En eins og oft áður í sumar á Selfossliðið meira á bensíntanknum en andstæðingarnir í lokin. Heimakonur gáfu í og Dagný skallaði knöttinn inn eftir hornspyrnu á 84. mínútu. Tveimur mínútum síðar slapp Donna-Kay Henry ein í gegn eftir stungusendingu frá Evu Lind.
Valur átti engin svör í lokin og Selfoss vann sætan sigur, í þriðja skiptið í sumar gegn Val í deild og bikar. Selfoss er áfram í 4. sæti deildarinnar og gerir atlögu að 3. sætinu, núna einu stigi á eftir Þór/KA.
Næsti leikur Selfoss er útileikur gegn Aftureldingu 25. ágúst og fjórum dögum síðar spilar liðið til úrslita í bikarkeppninni gegn Stjörnunni.