Þór Þorlákshöfn skellti Njarðvík öðru sinni í Iceland Express deild karla þetta tímabilið þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur í Icelandic Glacial Höllinni voru 84-66.
Njarðvíkingar voru sterkari aðilinn í upphafi leiks, komust í 4-9 og spiluðu afbragðs vörn. Heimamenn í Þór fundu ekki þriggja stiga körfurnar sínar framan af 1. leikhluta en í fimmtu tilraun hafðist ein niður hjá Blago Janev sem lokaði leikhlutanum með sex stigum í röð fyrir Þór en Njarðvíkingar leiddu 14-16 eftir fyrsta leikhluta.
Þórsarar byrjuðu með látum í öðrum leikhluta, jöfnuðu strax 16-16 með glæsilegu hraðaupphlaupi þar sem myndarleg sending frá Darra Hilmarssyni fékk endingu í hörku troðslu frá Matthew Hairston. Darri fór reyndar á kostum í liði Þórs í kvöld en gríðarleg vinnsla var á honum á báðum endum vallarins.
Heimamenn í Þór hertu tökin í 2. leikhluta, vörnina léku þeir stíft og Njarðvíkingar áttu erfitt með að komast upp að körfu Þórs. Gestirnir gerðu klaufaleg mistök í öðrum leikhluta, stigu illa út og heimamenn fengu nokkrum sinnum fleiri en eitt tækifæri til að skora úr sóknum sínum. Þórsarar komust fljótt í 32-22 með sterkum varnarleik en Njarðvíkingar áttu í basli með Darrin Govens og Matthew Hairston. Staðan var 38-26 í leikhléinu en Govens var með 18 stig hjá Þór í fyrri hálfleik og Blago Janev 12.
Heimamenn voru mun ákveðnari í upphafi seinni hálfleiks og komust í 54-39 eftir tvo þrista í röð frá hinum hávaxna Janev sem kunni vel við sig í kvöld fyrir utan þriggja stiga línuna. Þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta gerði Guðmundur Jónsson fyrstu stig íslenskra leikmanna í liði Þórs en atvinnumennirnir höfðu þá leitt Þórsliðið áfram. Það var svo Hairston sem lokaði leikhlutanum eftir sóknarfrákast þegar hann setti niður flautukörfu úr stökkskoti af endalínunni og Þór leiddi 65-45 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Njarðvíkingar áttu aldrei von í fjórða leikhluta og fengu yngri og óreyndari leikmenn liðanna að klára leikinn þar sem lokatölur voru 84-66 Þórsurum í vil.
Eftir sigurinn í kvöld er Þór með 18 stig í 6. sæti deildarinnar en aðeins skilja tvö stig að liðið í 2. og 6. sæti.
Janev var stigahæstur Þórsara í kvöld með 23 stig, Govens skoraði 22 og Hairston 17 auk þess að taka 14 fráköst. Guðmundur Jónsson skoraði 7 stig, Emil Karel Einarsson 6, Þorsteinn Már Ragnarsson 5 og Darri Hilmarsson 4.