„Það er ekkert að þessu veðri“

Ágúst Þór Guðnason, HSK, var sigursæll í íþróttum fatlaðra á Landsmóti UMFÍ á Selfossi í dag. Ágúst fékk þrjú gull um hálsinn en hann sigraði í spjótkasti, 100 m hlaupi og langstökki.

„Þetta er búið að ganga mjög vel og ég er búinn að vinna gull í öllum greinunum,“ sagði Ágúst í samtali við sunnlenska.is. Hann byrjaði daginn á að kasta 25,48 m í spjótkasti, hljóp svo 100 m hlaup á 14,44 sek og endaði á því að stökkva 4,40 m í langstökki.

„Ég er að keppa á mínu fyrsta landsmóti og það er mjög gaman að taka þátt hérna,“ sagði Ágúst ennfremur en hann lét veðrið ekki stoppa sig í að ná góðum árangri. „Nei, ég held að ég sé að bæta mig. Það er ekkert að þessu veðri, það er gaman að keppa og bara skemmtilegt að hlaupa og stökkva í rigningunni.“

Ágúst býr á Sólheimum og æfir þar með Íþróttafélaginu Gný, þó að hann segist ekki vera duglegur að æfa.

Keppni fatlaðra í frjálsum lýkur á morgun en þá keppir Ágúst í 400 m hlaupi og kúluvarpi. „Ég ætla að reyna að vinna þær greinar líka, ég veit ekki hvort það tekst en ef ég fæ ekki gull þá fæ ég vonandi bara silfur eða brons,“ sagði Ágúst að lokum.

Fyrri grein„Hef ekki farið inn í hringinn í tíu ár“
Næsta greinForsetinn stefnir á pönnukökubaksturinn