„Stemmningin hérna er bara frábær,“ sagði Þórir Ólafsson, eftir frábæran sigur Íslendinga á Norðmönnum á HM í handbolta í kvöld.
Ísland átti frábæran seinni hálfleik og sigraði að lokum 29-22 eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 12-12. Þórir skoraði þrjú mörk í leiknum, þar af eitt af vítalínunni.
„Það eru allir sáttir en við ætlum okkur strax niður á jörðina aftur. Fyrsta markmiðinu er náð en nú er það bara gamla klisjan um að taka einn leik í einu. Næstu leikir verða erfiðir og skipta þvílíku máli fyrir okkur upp á framhaldið,“ sagði Þórir í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Norðmennirnir urðu að vinna og voru búnir að spila út öllum spilunum fyrir leik. Þeir voru með yfirlýsingar í blöðunum og ætluðu að taka okkur á sálfræðinni. Við vissum svo sem að þetta yrðu slagsmál og við vorum tilbúnir í slaginn,“ sagði Þórir sem fékk að finna fyrir því í fyrri hálfleik þegar hann fékk norskt hné í fjölskyldudjásnin.
„Já, ég var smá stund að ná mér en er bara nokkuð góður eftir leikinn,“ sagði Þórir hlæjandi. „Þetta er alltaf hættan þegar maður fer að djöflast í 100 kílóa línutröllum.“
Þórir hefur verið í sviðsljósinu á mótinu og átt frábæra leiki í hægra horninu. Selfossbær er á öðrum endanum enda „strákurinn okkar“ að standa sig. Þórir er rólegur yfir þessu.
„Já, maður hefur svo sem orðið var við þetta. Það eru allir sem eiga mann núna. Það er gott að finna stuðninginn en ég er alveg rólegur yfir þessu.“
Þórir deilir herbergi með línutröllinu Sverre Jakobsen og ber honum vel söguna. „Það er alveg ljómandi að búa með Sverre. Við náum vel saman og hópurinn hefur það virkilega gott hérna. Menn eru reyndar orðnir svona nett leiðir á matnum á hótelinu sem er frekar einhæfur. Það var reyndar að detta inn pizza hérna í þessum töluðu…“