„Nei, það var aldrei spurning,“ sagði Jóhann Ólafur Sigurðsson aðspurður um hvort einhvern tímann hafi verið vafi í hans huga um að skrifa undir nýjan samning við Selfoss.
Hann og Einar Ottó Antonsson skrifuðu undir tveggja ára samning við knattspyrnulið Selfyssinga í hádeginu í dag. Þeir eru báðir heimamenn sem spiluðu ekki með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar.
„Nokkrir úr stjórninni töluðu við mig og spurðu hvort ég hefði áhuga á því að byrja aftur og ég sló til,“ sagði Einar Ottó, en hann tók sér frí frá knattspyrnuiðkun síðasta haust vegna þrálátra meiðsla.
„Ég náði mér vonandi góðum að því og gerði líka ýmislegt annað, byggði mér hús og svona. Þannig að núna sé ég fram á það að hafa tíma í þetta og vonandi verð ég í lagi í skrokknum,“ sagði Einar.
„Nú er bara að fara af stað og hreyfa sig og sjá til hvernig maður verður,“ bætti hann við. „Ég held að ég verði að taka gott undirbúningstímabil. Það verður fínt að byrja strax, þá get ég komið mér í gott form.“
Jóhann þurfti einnig að sitja uppi í stúku í sumar vegna meiðsla. Erfiðlega gekk að finna ástæðu fyrir því sem var að hrjá hann, en það tókst loksins nú í ágúst.
„Ég fer tvisvar til þrisvar í viku í hnykkingar hjá kírópraktor. Ég á að geta byrjað að æfa létt í desember og svo á fullu í janúar,“ sagði Jóhann.
Hvorugur þeirra hefur æft undir stjórn nýja þjálfarans, Gunnars Guðmundssonar, en báðir bíða spenntir eftir því að komast af stað.
„Ég þekki voðalega lítið til hans. Ég hef heyrt góða hluti um hann og allir bera honum vel söguna. Ég hlakka bara til að byrja að æfa undir hans stjórn,“ sagði Einar Ottó og Jóhann tók í sama streng.
„Mér líst mjög vel á hann. Hann hefur náð frábærum árangri þar sem hann hefur verið,“ sagði Jóhann sem hafði aðra ástæðu fyrir því að vera spenntur fyrir samstarfi við Gunnar.
„Hann er víst kallaður Gunni þýski og ég er mjög sáttur með það, þar sem ég held það mikið með Þjóðverjum.“