„Það var allt brjálað í lokin“

Sævar Þór Gíslason, fyrirliði Selfoss, var ánægður með daginn og segir nýja Selfossvöllinn æðislegan.

„Þetta er æðislegur völlur, hann er reyndar dálítið harður fyrir gamlan mann eins og mig og ég var kominn með krampa undir lokin,“ sagði Sævar Þór í samtali við Sunnlenska.is. „En umgjörðin hér er frábær og dagurinn allur er búinn að vera frábær. Það er líka vert að þakka fyrir mætinguna og ef við fáum svona mætingu það sem eftir er þá á það eftir að hjálpa okkur helling. Þú sérð að um leið og við skorum þá magnast stemmningin og það var allt brjálað í lokin,“ segir Sævar sem var ánægður með hvernig leikurinn þróaðist.

„Þetta var eins og svart og hvítt. Mér fannst við reyndar vaxa í fyrri hálfleik þegar við fórum að loka betur á þá og láta þá sparka, þá fórum við að komast meira í boltann,“ sagði Sævar og bætti við að varamennirnir hefðu gert gæfumuninn.

„Við fáum Einar Ottó inn og hann vinnur strax nokkra skallabolta. Viðar er búinn að vera þvílíkt vaxandi og var frábær í kvöld. Fiskar víti og skorar mark. Það verður ekki fallegra,“ sagði fyrirliðinn að lokum.

Fyrri grein„Ég var bara svalur á því“
Næsta greinBrugghúsið tekið til gjaldþrotaskipta