Selfyssingar byrjuðu af krafti í Inkasso-deildinni í knattspyrnu en liðið tók á móti Leikni Fáskrúðsfirði í 1. umferðinni í dag. Lokatölur urðu 3-2 eftir æsispennandi lokamínútur.
Selfossliðið var mjög sprækt í uppphafi og Teo Garcia var búinn að skora tvívegis eftir þrettán mínútna leik. Fyrst eftir frábæran undirbúning Arnórs Gauta Ragnarssonar og svo eftir barning í vítateig Leiknis.
„Ég var mjög glaður með fyrstu 25 mínúturnar, við spiluðum mjög frískan fótbolta og skorum tvö mörk en slökuðum svo aðeins á í kjölfarið. Það er leikur á þriðjudaginn og það var kannski bakvið eyrað á mönnum að vilja ekki meiðast – þó að það sé auðvitað ekki lagt upp með það,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Staðan var 2-0 í hálfleik.
„Við náðum að rífa okkur aftur upp í seinni hálfleik og sýndum mikla yfirburði og gæði. Það var fullt af allskonar í þessu, eins og maðurinn sagði. Við vorum að reyna skemmtilega hluti og áttum margar góðar sóknir,“ bætti Gunnar við.
Leikurinn var í öruggum höndum Selfyssinga allt þar til á 76. mínútu að Sindri Pálmason fékk beint rautt spjald fyrir vægast sagt litlar sakir, meint brot við vítateigslínuna. Leiknir fékk aukaspyrnu og úr henni skoraði Kristófer Viðarsson frábært mark.
„Það kom svaka stress í hópinn við þetta og það var erfitt að stilla liðið af í kjölfarið en við náðum að verjast vel og ég er mjög ánægður með það. Við vorum samt ekki að ná tökum á stressinu á þessum tímapunkti, fyrr en við skorum þetta frábæra þriðja mark,“ segir Gunnar.
Pachu kom Selfyssingum í 3-1 með frábærum sambatöktum á 91. mínútu en Leiknir tók miðju og minnkaði muninn nokkrum sekúndum síðar með langskoti Hilmars Bjartþórssonar.
„Já, aftur fengum við kjaftshögg en eftir það hafði ég ekki áhyggjur. Ég fann að þetta var komið, við vorum þéttir fyrir og töluðum vel saman þannig að þeir voru ekki að fara að skora annað mark. Það er æðislegt að byrja á sigri. Við erum í þessu til að safna stigum,“ sagði Gunnar að lokum.
Næsti leikur Selfoss er bikarleikur gegn Njarðvík á JÁVERK-vellinum á þriðjudagskvöld. Liðið mætir svo Keflavík á útivelli í deildinni næstkomandi laugardag.