FSu tapaði naumlega gegn Íslandsmeisturum KR, 96-103, þegar liðin mættust í Iðu á Selfossi í Dominos‘s-deild karla í körfubolta í kvöld.
Gestur Einarsson frá Hæli skrifar úr Iðu
„Þetta er mjög svekkjandi, við vorum með þá í sigtinu og vorum yfir og mest tuttugu stigum en svo fengum við þetta bara í bakið. Það vantaði bara flæðið í bolta hjá okkur í 4. leikhluta, þetta var bara einstaklingsframtak þá,“ sagði Bjarni Geir Gunnarsson, leikmaður FSu, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Þetta er búið að gerast allt of oft hjá okkur með þessa „4. leikhluta Grýlu“ þar sem við missum móðinn. Menn ætla bara að klára leikinn uppá eigin spýtur í staðinn fyrir að klára leikinn á liðsheild og spila okkar leik áfram þar sem vörnin á að vera til staðar líka,“ sagði Bjarni og bætti við að liðið ætti að vera ofar á stigatöflunni.
„Að sjálfsögðu. En við náttúrulega getum sjálfum okkur um kennt. Við erum við búnir að vera í „close leikjum“ og höfum sýnt að við eigum við heima í þessari deild og ofar á töflunni alveg klárlega. Við náðum reyndar ekkert að æfa þessa vikuna útaf því það voru einhverjir jólatónleikar hérna í Iðu í vikunni, svo var óveðrið á mánudaginn þannig að við komust ekkert að æfa. Það eina sem við erum búnir að skoða er vörnin, hún er búin að vera slæm hjá okkur það sem af er tímabili og við þurfum bara að laga hana. Við vorum að laga screenin, sem eru búin að vera okkar helsti veikleiki annars ekkert annað.“
FSu hélt flugeldasýningu í upphafi
FSu byrjaði leikinn á að setja niður þrjár þriggja stiga körfur og leiddi 20-11 eftir að fimm mínútur voru liðnar af 1. leikhluta. FSu hélt flugeldasýningunni áfram og sýndu Íslandsmeistunum enga miskunn. Þeir leiddu 35-19 eftir að 1. leikhluta lauk.
KR-ingar byrjuðu 2. leikhluta af krafti og náðu að gera sjö stig í röð á einni og hálfri mínútu. Erik Olson þjálfari Fsu tók leikhklé í kjölfarið. Chris Woods og Cristopher Caird hrukku í gang eftir það og leiddu FSu í tuttugu stiga forystu er fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. KR-ingar svöruðu þó fyrir sig og náðu að minnka muninn niður í tíu stig er flautað var til hálfleiks 56-46.
Chris Woods var með 22 stig og 6 fráköst í hálfleik og Caird með 18 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar en lið FSu var með frábæra nýtingu í fyrri hálfleik þar sem þeir höfðu hitt 70% í þriggja stiga skotum, 53,3% í 2 stiga skot og 83,3% af vítalínunni.
Stórleikur Craion í seinni hálfleik
KR-ingar komu sterkari inn í seinni hálfleikinn þar sem þeir tóku hart á lykilmönnum FSu og var baráttan mikil inn á vellinum. Bæði liðin spiluðu mjög hraðan leik í þessum leikhluta. KR-ingar náðu að minnka muninn niður í fjögur stig undir lok 3. leikhluta, 78-72 þó FSu væri ekkert að gefa eftir en KR-ingar unnu 3. leikhluta 26-22.
Íslandsmeistararnir héldu áhlaupinu áfram og spiluðu yfirvegaðan leik á meðan FSu virtust vera flýta sér of mikið að taka skotin í upphafi 4. leikhluta. KR-ingar jöfnuðu er átta mínútur voru til leiksloka, 80-80 og náðu að gera 20 stig á móti 4 stigum FSu er 4. leikhluti var hálfnaður.
Michael Craion átti stórleik fyrir KR í síðari hálfleik og gerði 39 stig í leiknum og hirti 18 fráköst og Helgi Már Magnússon var næstur með 27 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar en leikur þessa tveggja félaga gerði út um vonir FSu að vinna leikinn. KR-ingar náðu mest ellefu stiga mun, 89-100 en FSu náði að minnka muninn niður í sjö stig er flautað var til leiksloka 96-103.
FSu er í 11. sæti deildarinnar með fjögur stig en þeir sigruðu topplið Keflavík í seinustu umferð og voru hársbreidd frá sigri gegn KR í kvöld sem er talið sterkasta lið deildarinnar.
Tölfræði FSu: Cristopher Caird 30 stig/9 fráköst, Christopher Woods 28 stig/14 fráköst, Hlynur Hreinsson 12 stig/5 stoðsendingar, Bjarni Geir Gunnarsson 10 stig, Gunnar Ingi Harðarson 7 stig, Birkir Víðisson 4 stig, Ari Gylfason 3 stig, Arnþór Tryggvason 2 stig.