„Þeir eltu okkur allan tímann“

„Þetta var bara frábært í kvöld. Það gekk allt upp sem við skipulögðum fyrir leikinn,“ sagði Jón Daði Böðvarsson, besti maður Selfoss í 0-4 sigri á Grindavík í kvöld.

„Við erum góðir á boltann og létum hann rúlla, þeir eltu okkur allan tímann og það skóp þennan sigur,“ sagði Jón Daði sem var mjög ógnandi í fyrri hálfleik. Hann skoraði fyrsta mark liðsins og lagði upp það þriðja sem gerði endanlega út um leikinn.

„Við töluðum um það að þeir myndu mæta dýrvitlausir í seinni hálfleikinn og ákváðum að þétta vörnina. Markið hans Tomma var frábært og síðan gerði Viðar virkilega vel í vítinu og þá var þetta bara komið. Þetta var bara frábært.“

Tveir sigurleikir í röð hafa greinilega hleypt sjálfstrausti í lið Selfoss sem leit virkilega vel út í kvöld. Jón Daði er sammála því að það var allt annað að sjá til liðsins.

„Þetta er búið að vera algjört þunglyndi í síðustu leikjum, tap, tap, tap og aftur tap. Sigurinn gegn Fram gaf okkur virkilega gott sjálfstraust og það sást alveg í dag. Það er búinn að vera stígandi í liðinu og þetta er alltaf að verða betra og betra. Við erum að taka vel á því á æfingum og erum að æfa aukalega saman og tölum mikið um hvað við getum gert betur. Vonandi verður þetta bara jákvætt framundan hjá okkur,“ sagði Jón Daði Böðvarsson að lokum.

Fyrri greinSelfyssingar flengdu Grindvíkinga
Næsta greinEngin meiðsli þegar bíll valt út í skurð