Helena Ólafsdóttir, þjálfari kvennaliðs Selfoss, var svekkt með úrslit kvöldsins en hún er ánægð með sumarið í heild sinni.
„Við vorum klárlega alltaf inni í þessum leik. Það var meiri kraftur í okkur megnið af leiknum og þess vegna er þetta pínu svekkjandi. Við vorum betri í fyrri hálfleik og eftir að þær skora 2-1 þá erum við alltaf líklegar til að jafna. Svo fáum við vítið og ef við hefðum jafnað þá hefðum við verið komnar áfram en eftir það kom uppgjöf í þetta hjá okkur sem er kannski eðlilegt,“ sagði Helena í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„En við verðum að horfa á sumarið í heild sinni sem var gott. Við erum með ungt lið og við lærum mikið af þessu. Það er auðvitað svekkjandi að annað árið í röð erum við hársbreidd frá því að fara upp og stelpurnar eru örugglega búnar að fá nóg af þessu en þetta er bara svona. Það vantaði kraft í okkur í lokin til að klára þetta,“ segir Helena.
Mikil barátta var í báðum leikjunum en Þróttarar nýttu sín færi betur og það var það sem skildi liðin að. „Það er ljóst að þú verður að nýta sénsana sem þú færð og það gerðum við ekki. Það var þannig í fyrri leiknum líka þar sem við hefðum getað unnið 2-1 eða 3-1 og komið hingað í mjög þægilegri stöðu.“
Helena reiknar með að halda áfram með Selfossliðið og segir ljóst að framtíðin sé björt þar sem mikið sé af efnilegum stelpum á Selfossi. „Þessir leikir fara bara í reynslubankann. Við lentum í skakkaföllum í sumar og höfum þurft að fara yfir nokkrar hindranir og vonandi höfum við lært eitthvað af því,“ segir Helena.
Það munaði mikið um það fyrir Selfyssinga að missa Katrínu Friðgeirsdóttur í meiðsli í júlí en hún hafði þá skorað 25 mörk í 11 deildarleikjum. „Ég hafði smá áhyggjur þegar Katrín meiddist því liðið virtist missa aðeins trúna á verkefninu. Það eru fáar sem eru á sama hraða og Katrín og auðvitað breyttist leikur liðsins við að missa hana. Mér fannst við samt vinna okkur vel út úr því,“ segir Helena sem var ánægð með liðið í riðlakeppninni.
„Ég var ánægð með hvernig við vorum að spila og vinna sannfærandi sigra. En það er ekki nóg að vinna 7-0 í riðlinum og tapa svo í úrslitunum. Það er enginn spurður að því hvernig við unnum í riðlinum. Nú er bara spurt hverjir fóru upp.“