„Þetta var allt í járnum í kvöld en uppleggið fyrir leikinn gekk nokkurn veginn upp,“ sagði Ómar Valdimarsson, þjálfari KFR, í samtali við sunnlenska.is eftir leikinn við KB í kvöld.
„Við stigum aðeins framar í kvöld en við erum vanir. Við þurftum að skora og það var nóg að setja mark á þá til að koma okkur í góða stöðu. Við vorum undir í byrjun leiks, það var einhver taugatitringur í liðinu enda hafa þeir ekki spilað marga úrslitaleiki þessir strákar. En föstu leikatriðin voru að virka hjá okkur og annað markið var mjög dýrmætt,” sagði Ómar en bæði mörk KFR komu eftir föst leikatriði.
Og þjálfarinn viðurkennir að árangur sumarsins hafi komið sér og liðinu sínu á óvart. „Ég viðurkenni það alveg að það var ansi hár stuðullinn á okkur í vor. Það hefðu ekki margir veðjað á þetta og við áttum ekki einu sinni von á þessu sjálfir.
Lykillinn að þessum árangri er bara skipulagið sem var sett upp, það virkaði. Þetta er mjög einföld uppskrift, þéttir aftur og sækja hratt. Liðið er nánast óbreytt frá því í fyrra en við fengum ágætis viðbót frá Póllandi. Annars eru þetta allt heimastrákar. Þeir eru með stórt hjarta og sáu sénsinn. Það virðist vera að þeir spili best þegar allt er undir,“ sagði Ómar að lokum.
Þórhallur Lárusson potar boltanum yfir marklínuna og jafnar 1-1. sunnlenska.is/Guðmundur Karl