„Þetta kostar blóð, svita og tár“

Virðulegur maður í jakkafötum með hatt vakti athygli er hann steig niður völlinn í leikhléi og eftir leik Selfoss og Keflavíkur í gærkvöldi.

Þarna var á ferðinni Siggeir Ingólfsson, yfirverkstjóri hjá umhverfisdeild Árborgar, en hann hefur verið vakinn og sofinn yfir nýræktinni á Selfossvelli.

„Það eru margir búnir að bíða eftir þessum degi. Fyrir ári síðan, þegar sáð var hér í sandinn, voru ekki margir sem höfðu trú á því að vallarvígslan yrði á þessu ári,“ sagði Siggeir í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Útkoman er alveg meiriháttar. Það hafa allir lagst hér á eitt og stundum hefur verið á brattann að sækja. Þetta kostar blóð, svita og tár, enda var ég oft kominn hérna út á völl um miðjar nætur í mesta þurrkinum í fyrrasumar eftir að búið var að sá í völlinn. Ég hélt honum blautum alveg í þrjár vikur og var hér stanslaust,“ segir Siggeir.

Á leikvöngum erlendis tíðkast það að kappklæddir vallarstarfsmenn stígi niður velli í leikhléi og eftir leiki þar sem lagfærðir eru blettir sem sparkað hefur verið upp. Siggeir var hinsvegar hinn virðulegasti inni á vellinum í jakkafötum með hatt enda hátíðisdagur. „Það er aldrei að vita nema ég taki þetta bara upp að mæta svona,“ segir Siggeir hlæjandi. „Þetta er barnið manns. Nú er það fætt og þá verður að hlú að því og ala það upp. Það er mjög mikilvægt.“

Og Geiri var ekki síður ánægður með leik Selfossliðsins í gær. „Leikurinn var frábær. Menn voru orðnir vonlitlir en ég hafði alltaf trú á þessu, alveg eins og ég hafði trú á vellinum.“

Fyrri greinHamingjan leysist úr læðingi
Næsta greinSkrifað undir breikkun Suðurlandsvegar