„Þetta léttir aðeins lundina“

Ágústi Björgvinssyni, þjálfara Hamars, var létt eftir að átta leikja taphrinu liðsins í Iceland Express-deild karla lauk með sigri á Tindastóli í kvöld.

„Þetta léttir aðeins lundina hjá mönnum en þetta gefur okkur lítið ef við ætlum okkur að koma rólegir í næstu leiki. Við verðum að nota þetta sem byr í okkar segl,“ sagði Ágúst í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Auðvitað fer það á sálina á mönnum að hafa tapað mörgum leikjum í röð. Við erum búnir að tapa jöfnum leikjum þar sem við höfum kannski verið betri aðilinn, t.d. á móti Njarðvík í síðustu umferð. Mér fannst við betri aðilinn í kvöld en þetta var spennandi undir lokin og það hefði verið eftir öllu ef þeir hefðu klára þetta á síðustu sekúndunum. Ég er virkilega sáttur og þetta er langþráður sigur,“ sagði Ágúst.

Devin Sweetney hefur nú leikið þrjá leiki með Hamri og hann fór á kostum í kvöld og skoraði drjúgt bæði innan og utan teigs. Ágúst var ánægður með framlag hans. „Hann var frábær í fyrri hálfleiknum þar sem hann skoraði 25 stig en það sem vann þennan leik í kvöld var samt baráttan hjá öllu liðinu. Það var sama hver kom inná hjá okkur í kvöld, það börðust allir fyrir liðið og við náum að halda Tindastól í 36 stigum í seinni hálfleik sem er mjög gott.“

Fyrri greinLoksins sigur hjá Hamri
Næsta greinTvö fíkniefnamál hjá Selfosslögreglu