Jón Guðbrandsson stóð við stóru orðin gegn Stjörnunni í kvöld og skoraði fyrra mark Selfyssinga í 2-2 jafntefli.
„Alltaf tilbúinn að skora,“ sagði Guðbrands í viðtali við sunnlenska.is í dag og hann sýndi það og sannaði á 22. mínútu þegar hann smurði boltanum glæsilega í mark Stjörnunnar.
„Já, þetta var dýrari týpan. Leiðinlegt að það telur bara eitt stig, þetta var þriggja stiga mark,“ sagði Jón í samtali við sunnlenska.is í leikslok.
„Í rauninni getum við verið sáttir við að ná í stig eftir þennan leik. Við náðum ekki upp neinu spili og þegar við fengum boltann vorum við rosalega fljótir að missa hann aftur. Við eigum að geta gert mikið betur en þetta,“ sagði Jón.
„Það voru mikil hlaup á okkur allan leikinn, við vorum að elta þá úti um allan völl en eftir að við urðum manni fleiri þá hefðum við átt að gera betur og ná að pota inn sigurmarki.“