Lið FSu tapaði stórt þegar Njarðvík kom í heimsókn í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 82-110 og FSu er enn án sigurs í deildinni.
„Þetta var mikið svekkelsi. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur án útlendings og við hefðum þurft að spila mjög vel til að vera inni í leiknum. Ég held að þetta hafi ekki verið gæðamunur á liðinum í kvöld heldur einfaldlega skortur á trú á verkefnið hjá okkur. Við lentum tuttugu stigum undir á stuttum tíma í 2. leikhluta og vorum ekki nógu grimmir að svara fyrir okkur,“ sagði Erik Olson, þjálfari FSu, í samtali við sunnlenska.is í leikslok.
„Ef ég glugga í tölfræðina þá höfðu þeir mikla yfirburði í fráköstum og við misstum boltann of oft, þetta eru lykilatriði. En við vorum fullkomnir á vítalínunni og ef við hefðum hugsað betur um boltann þá hefði þetta getað orðið öðruvísi leikur,“ bætti Erik við.
FSu lék án Chris Anderson sem var látinn fara frá liðinu í vikunni. Chris Woods mun leysa hann af hólmi en hann kemur til landsins í vikulokin og mun væntanlega spila næsta leik liðsins, botnslag gegn Hetti á útivelli.
„Við horfum bara bjartsýnir fram á við,“ segir Erik. „Ég á von á miklu af Woods, hann hefur spilað í þrjú ár á Íslandi, með Snæfelli og Val og hefur því reynslu úr deildinni. Hann er góður drengur og fagmaður og mun strax hafa áhrif á hugarfarið hjá okkur.“
FSu byrjaði vel í leiknum í kvöld en fyrsti leikhluti var jafn og skildu þrjú stig að að honum loknum, 25-28. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af 2. leikhluta skildu leiðir. Njarðvík gerði 24-6 áhlaup og leiddi í hálfleik, 36-57. FSu náði sér aldrei á strik eftir það og munurinn varð mestur 45 stig í upphafi 4. leikhluta.
Lið FSu er áfram án stiga á botni deildarinnar ásamt hinum nýliðunum í Hetti.
Tölfræði FSu: Cristopher Caird 30 stig/6 fráköst (24 í framlagseinkunn), Hlynur Hreinsson 22 stig/5 fráköst/6 stoðsendingar (24 í framlagseinkunn), Ari Gylfason 9 stig, Svavar Stefánsson 5 stig/6 fráköst, Gunnar Ingi Harðarson 3 stig/5 fráköst/6 stoðsendingar, Geir Helgason 3 stig, Birkir Víðisson 2 stig, Hilmir Ægir Ómarsson 2 stig, Maciej Klimaszewski 2 stig, Arnþór Tryggvason 2 stig, Bjarni Geir Gunnarsson 2 stig.