Hamar vann öruggan sigur á Stokkseyri í A-riðli 4. deildar karla í kvöld. Þrátt fyrir mikinn markamun, 1-6, var um hörkuleik að ræða.
„Þetta var sæmilegt í kvöld. Það var ekkert sérstaklega gott spilið hjá okkur, völlurinn lítill og það hentar okkur ekki nógu vel því við náðum ekki almennilegu spili á löngum köflum. Þeir voru fastir fyrir og við náðum ekki alveg að matcha það, en við náðum hins vegar að skora fleiri mörk en þeir og unnum stórsigur þannig að það er fínt,“ sagði Ágúst Örlaugur Magnússon, fyrirliði Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hamar er í hörkubaráttu í efri hluta riðilsins.
„Já, það er stutt á milli liða og það er allt opið ennþá. Við ætlum okkur að vera þarna í toppbaráttunni alveg þangað til í lokin. Við eigum mikilvægan leik gegn Létti næst, við töpuðum fyrir þeim á útivelli og erum lengi búnir að tala um að kvitta fyrir það í næsta leik,“ sagði Ágúst Örlaugur ennfremur.
Hamarsmenn voru meira með boltann á upphafsmínútunum en fyrsta markið kom uppúr engu þegar Daníel Rögnvaldsson reyndi skot að marki Stokkseyrar á 13. mínútu. Eyþór Finnsson náði ekki að handsama boltann og „varði“ hann í netið.
Á 22. mínútu braut Nikulás Magnússon, markvörður Hamars, á Örvari Hugasyni inni í vítateig og góður dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu. Þórhallur Aron Másson fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Hamar komst aftur yfir á 29. mínútu. Daníel átti þá þrumuskot sem Eyþór varði glæsilega en Hermann Ármannsson náði frákastinu og skallaði í mark. Mínútu síðar slapp Daníel aftur innfyrir Stokkseyrarvörnina en Eyþór kom á móti honum og varði vel.
Stokkseyringar litu hins vegar ekki eins vel út í þriðja marki Hamars. Bakvörðurinn Einar Ingi Jónsson ætlaði að hreinsa frá en „slæsaði“ boltann inn í vítateig þar sem Eyþór markvörður rann til og rétt missti af knettinum. Boltinn féll hins vegar fyrir fætur Daníels sem skoraði í autt markið. Staðan 1-3 í hálfleik, þrátt fyrir að lítið hafi verið um opin færi.
Hamar byrjaði af krafti í síðari hálfleik og átti að fá vítaspyrnu á 50. mínútu þegar bakvörðurinn Erling Ævarr Gunnarsson varði skot Hamarsmanna með hendinni, svo lítið bar á. Dómarinn sá líklega ekki atvikið, en réttlætinu var hins vegar fullnægt þremur mínútum síðar þegar Hamar fékk aukaspyrnu við vinstra vítateigshornið. Daníel smellti knettinum inn í markteiginn þar sem Stefán Jónsson kom fljúgandi og stangaði hann í netið.
Stokkseyri komst meira inn í leikinn eftir þetta og einkenndist hann helst af baráttu á miðjunni. Á 63. mínútu slapp Eyþór Gunnarsson innfyrir vörn Hamars en skot hans fór rétt framhjá fjærstönginni og á 76. mínútu átti Stefán Jónsson að bæta við marki fyrir Hamar þegar hann fékk boltann á auðum sjó í vítateignum en einhvernveginn endaði boltinn fyrir aftan endamörk.
Á 77. mínútu skoruðu Hvergerðingar sitt fimmta mark. Jorge Blanco átti þá hörkuskot úr miðjum teignum sem Eyþór varði vel en frákastið barst til Ómars Ómarssonar sem þrumaði boltanum af stuttu færi upp í þaknetið.
Leikurinn var opinn á lokakaflanum en fátt um alvöru færi. Brynjar Björnsson tók sig þó til og bætti sjötta marki Hamars við á 86. mínútu. Hákon Harðarson átti þá lúmska fyrirgjöf utan af kanti sem Brynjar sigtaði vel út og skallaði boltann í netið.
Hamar er nú í 3. sæti riðilsins með 15 stig en Stokkseyri er í 5. sæti með 6 stig.