„Þetta var svakalega ódýrt víti“

Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, var að mörgu leiti ánægður með sína menn eftir 3-1 tap gegn KR í Pepsi-deild karla í dag.

„Mér fannst þetta að mörgu leiti í góðu lagi, alveg þangað til að við fáum á okkur annað markið. Þá dettum við svolítið niður en við fáum samt tækifæri í stöðunni 2-1, fáum víti og dauðafæri. Eftir að þau færi fóru í súginn greip um sig eitthvað vonleysi hjá okkur,“ sagði Logi í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar sýndu fína takta í leiknum og börðust vel en mörk KR voru í ódýrari kantinum eftir að Selfyssingar sváfu á verðinum í föstum leikatriðum. Bæði mörk KR í seinni hálfleik komu eftir hornspyrnur.

„Það er sama sagan, menn eru ekki að fylgja sínum mönnum. Við höfum svosem brugðið því upp að æfa þetta sérstaklega, en það er sama hvað þú setur upp og æfir og segir; ef þú fylgir ekki þínum mönnum og ert agressívur á lausa bolta í teignum þá fer svona.“

Selfyssingar vörðust vel í fyrri hálfleik og Viðar var beittur í sókninni. Logi segir að uppleggið fyrir leik hafi gengið vel fyrstu 45 mínúturnar. Fyrsta mark KR kom úr vítaspyrnu sem dæmd var varnartilburði Moustapha Cissé. „Þeir voru ekki að skapa mikið áður en þeir fengu vítið. Þetta var svakalega ódýrt víti. Venjulega er dæmd óbein aukaspyrna á háskaleik,“ sagði Logi og bætti við að hann hafi verið ánægður með baráttuna í liðinu.

„Þegar við reynum að jafna í stöðunni 2-1 þá opnast þetta og þeir fá tvö fín færi. Frammistaða liðsins var ágæt, við héldum þeim lengi vel í skefjum og börðumst vel. Þrátt fyrir það er lítið sem fellur með okkur. Það er ágætt að það er stutt í næsta leik, við þurfum þá ekki að sitja lengi með þetta, og tökum það góða út úr leiknum fyrir næsta leik. KR er sennilega besta lið landsins og við erum svekktir yfir því að hafa ekki farið með að minnsta kosti eitt stig héðan frá þeirra heimavelli.“

Fyrri greinKFR tapaði á Ólafsfirði
Næsta greinAlhvít jörð og eldingar í Svínahrauni