Selfyssingar töpuðu 0-2 fyrir KA í jöfnum leik í 1. deild karla í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld.
„Við vörðumst vel fyrir utan þessi tvö mörk. Ég held reyndar að við höfum ekki verið að verjast, heldur vorum í sókn, þegar þeir skora bæði mörkin. Þetta voru algjörar gjafir, sem er skelfilega dýrt fyrir okkur. Við náðum kannski þremur alvöru skotum á markið, sem er skelfilegt. Sorglegast í þessu er að við eigum líklega besta færið í leiknum, en þeir vinna okkur samt 2-0,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Það vantaði græðgi og sigurhugarfar hjá okkur. Það er búið að vanta það á Selfossi í nokkur ár og við þurfum að hamra það inn í hausinn á mönnum að hætta að sætta sig við einhverja meðalmennsku. Menn þurfa að hafa trú á sjálfum sér og ákveða þegar þeir sjá dauðan bolta inni í vítateignum að þeir ætli að ná honum, en ekki andstæðingurinn. KA er með betri einstaklinga en liðsheildin hjá þeim er ekki sterkari en hjá okkur, finnst mér. Þeir hafa hins vegar trú á því að þeir geti unnið alla bolta og skapa sér þannig sína eigin heppni, því þeir fara á fullu í 50/50 bolta. Þess vegna eru þeir á toppnum,“ sagði Gunnar ennfremur.
KA komst yfir á 13. mínútu með einföldu marki þar sem Selfossvörnin svaf á verðinum. Selfyssingar áttu líka sín færi en það besta fékk líklega Arnór Gauti Ragnarsson um miðjan fyrri hálfleikinn þegar hann komst einn inn á vítateig en lét verja frá sér úr nokkuð þröngri stöðu.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks náðu KA menn svo að auka forskotið með skoti utan úr vítateignum sem fór framhjá bæði Andy Pew í vörninni og Vigni Jóhannessyni í markinu. Tvö núll í hálfleik.
Baráttan var hörð í síðari hálfleik en færin voru ekki mörg, á báða bóga. KA menn svæfðu leikinn smátt og smátt og Selfyssingum varð lítið ágengt. Ingi Rafn Ingibergsson fékk besta færi þeirra vínrauðu í uppbótartíma en Srdjan Rajkovic varði vel frá honum.
Selfyssingar eru nú í 8. sæti deildarinnar með 10 stig og næsta verkefni liðsins er bikarleikur á útivelli gegn Fram á þriðjudagskvöld. Framarar töpuðu 2-0 gegn HK í kvöld.
Gunnar segir liðið hafa nægan tíma til að stilla saman strengi sína fyrir bikarleikinn. „Liðið er í fínu standi og það er enginn meiddur og við vitum alveg hvað við þurfum að gera. Arnar Logi og Pachu eru þeir einu sem eru frá hérna í kvöld, báðir búnir að vera með ælupest og Pachu er ennþá heima þannig að við óskum þeim skjóts bata.“