Ægir vann gríðarlega mikilvægan sigur á KFS í B-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld, 3-1 í Þorlákshöfn.
Þetta var hörkuleikur og baráttan var allsráðandi í fyrri hálfleik. Eyjamenn komust yfir á 6. mínútu en Luc Mahop jafnaði leikinn fyrir Ægi tæpum tíu mínútum síðar. Eftir það var leikurinn í járnum en Ægismenn voru þó meira með boltann fram að hléi.
Staðan var 1-1 í hálfleik en strax á 1. mínútu seinni hálfleiks kom Luc Ægi í 2-1 með góðu marki. Eftir það tóku Ægismenn öll völd á vellinum og Michael Jónsson skoraði þriðja markið á 67. mínútu. Ægir hefði getað bætt við mörkum þar sem góð færi fóru í súginn. Eyjamenn áttu líka nokkrar efnilegar sóknir og Hlynur Kárason varði t.a.m. mjög vel í tvígang.
B-riðillinn, sem Ægir og KFR leika í, er í algjörum hnút þar sem fjórum stigum munar á liðunum í 1. og 6. sæti. Ægir fór upp í 5. sætið með sigrinum en að átta umferðum loknum er röð efstu liðanna þessi (stigafjöldi innan sviga): Ýmir (16), KFR (16), KV (15), Léttir (14), Ægir (13), KFS (12).
Í næstu umferð eigast Ægismenn og Rangæingar við en leikurinn fer fram á fimmtudaginn á Hvolsvelli.