Haraldur Einarsson, HSK, sigraði í tveimur hlaupagreinum á vormóti HSK í frjálsum íþróttum sem fram fór á Selfossi í dag.
Þingmaðurinn nýkjörni sýndi að stjórnmálaþátttakan hefur ekki alveg tekið hug hans allan því hann sigraði bæði í 100 m hlaupi á 11,33 sek og í 300 m hlaupi á 41,65 sek. Þriðji í 300 m hlaupinu varð Sigurður Páll Sveinbjörnsson, Selfossi, hljóp á 45,58 m. Sigurður Páll tók hins vegar gullið í 800 m hlaupi, hljóp á 3:34,32 mín og var hársbreidd á undan Haraldi sem varð annar á 3:34,59 mín.
Ólafur Guðmundsson sigraði í 110 m grindahlaupi á 16,68 sek, rétt á undan félaga sínum úr Laugdælum Hreini Heiðari Jóhannssyni, sem hljóp á 16,84 sek. Ólafur varð síðan annar í kúluvarpi, kastaði 12,06 m en Dagur Fannar Magnússon, Selfossi, varð þriðji, kastaði 10,16 m. Þeir höfðu svo sætaskipti í sleggjukastinu þar sem Dagur varð annar með kast upp á 46,31 m og Ólafur varð þriðji, kastaði 37,86 m.
Hreinn Heiðar sigraði í hástökki þegar hann stökk 1,80 m en keppni var hætt vegna bleytu þegar Hreinn hafði tryggt sér sigurinn. Hann varð svo þriðji í spjótkasti, kastaði 39,03 m. Selfyssingurinn Örn Davíðsson kastaði 72,32 m í spjótkastinu og sigraði, en Örn keppir fyrir FH. Þetta er annar besti árangur Arnar í spjótkastinu frá upphafi en almennt var árangur dagsins í kastgreinunum nokkuð góður.
Anna Pálsdóttir, Selfossi, sigraði með yfirburðum í spjótkasti, kastaði 34,05. Hún varð síðan önnur í kringlukasti þegar hún kastaði 29,69 m og þriðja í kringlukastinu varð Eyrún Halla Haraldsdóttir, Selfossi, með kast upp á 29,24 m.
Bjarni Már Ólafsson, HSK, vann öruggan sigur í þrístökki, stökk 13,67 m en Fannar Yngvi Rafnarsson, Þór Þ, varð þriðji með 12,13 m stökk.
Í 100 m grindahlaupi varð Bryndís Eva Óskarsdóttir, Selfossi, í 2. sæti á 15,81 sek og Ágústa Tryggvadóttir, Selfossi, þriðja á 16,14 sek. Ágústa krækti síðan í silfur í langstökki, stökk 4,93 m og þar varð Harpa Svansdóttir, Selfossi, þriðja, stökk 4,27 m.
Halla María Magnúsdóttir, Selfossi, varð önnur í 100 m hlaupi á 13,86 sek og Elsa Margrét Jónasdóttir, Selfossi, þriðja á 16,35 sek og Eyrún Gautadóttir, Baldri, varð önnur í 3.000 m hlaupi á 13:06,04 mín.
Í piltaflokki varð Jón Gautason, Baldri, annar í kúluvarpi, kastaði 9,48 m.
Strekkingsvindur setti sitt mark á mótið og nær allur árangur í spretthlaupum og langstökki var með of mikilum meðvindi til að geta talist löglegur.
Mótið í dag var fyrsta mótið í mótaröð Prentmets og FRÍ sem nú er haldin í annað sinn. Mótin í mótaröðinni eru sex talsins og næsta mót er JJmót Ármanns, sem fram fer á Laugardalsvellinum á miðvikudaginn kemur