,,Þjálfarinn fékk leyfi í fyrri leiknum

,,Ég tel að möguleikarnir séu 50/50. Við förum í alla leiki til að vinna og ef það tekst þá hljótum við að enda uppi."

Þetta segir Lárus Viðar Stefánsson, leikmaður KFR, í samtali við Fótbolta.net en liðið mætir KB í kvöld í síðari leik liðanna í undanúrslitum þriðju deildar karla. Fyrri leikur liðanna fór 1-1 en þau mætast aftur á Leiknisvelli klukkan 20:00 í kvöld.

Árangur KFR í sumar er framar vonum en liðið komst upp úr B-riðlinum og lagði síðan Berserki í 8-liða úrslitunum.

,,Ég get ekki sagt að við höfum búist við þessu. Það hefur ekki gengið vel síðustu 3-4 ár og fyrirfram hefði maður sætt sig við 3-4 sætið í sterkum riðli,“ sagði Lárus en stemningin í kringum KFR liðið er góð.

,,Það er búin að vera góð mæting á völlinn síðan við sáum möguleika á að komast upp úr riðlinum. Það er búin að vera góð mæting og hún náði hámarki í fyrri leiknum á móti KB. Þá var bæjarhátíð í gangi og mikil stemning. Við reiknum með því að fá góðan stuðning í kvöld.“

Ómar Valdimarsson þjálfari KFR mætir að nýju á hliðarlínuna í kvöld en hann missti af fyrri leiknum síðastliðinn laugardag.

,,Hann bjóst ekki við að við myndum ná svona langt og var búinn að bóka sér ferð til Bandaríkjanna fyrir þónokkru síðan þannig að hann fékk leyfi. Þetta hefur gerst í úrvalsdeildinni líka eins og hjá Þórsurum þó að það hafi kannski ekki verið verslunferð. Hann fékk leyfi og kemur ferskur inn á morgun.“

Ómar lofaði því fyrir tímabilið að hann myndi hlaupa nakinn á milli Hellu og Hvolsvallar ef KFR kæmist úrslitakeppnina en hann á ennþá eftir að efna það loforð.

,,Hann er ekki búinn að því, við ætlum að klára tímabilið fyrst. Hann mun standa við það en það er spurning hvort hann fái afslátt af vegalegdinni. Þetta eru tólf kílómetrar og það er meira en að segja það,“ sagði Lárus að lokum.

Frétt Fotbolti.net

Fyrri greinFræðslunetið opnar á Hvolsvelli
Næsta greinHlaupórói í Mýrdalsjökli