Þórsarar sitja á toppi D-riðils Lengjubikars karla í körfubolta eftir 76-84 sigur á Njarðvík á útivelli í kvöld.
Þórsarar byrjuðu betur í leiknum og komust í 2-8 en Njarðvík jafnaði 13-13 og leiddi að loknum 1. leikhluta, 20-18. Leikurinn var jafn og spennandi í 2. leikhluta og Njarðvíkingar héldu forystunni fram að leikhléi, 41-40.
Það sama var uppi á teningnum í 3. leikhluta og lítill munur á liðunum. Njarðvík komst í 60-54 en Þórsarar skoruðu fjögur síðustu stigin í 3. leikhluta og staðan var 60-58 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
Njarðvík skoraði fyrstu fimm stigin í 4. leikhluta og breytti stöðunni í 65-58. Þá kom 5-18 áhlaup frá Þórsurum sem breyttu stöðunni snarlega í 70-76. Njarðvíkingum var brugðið en Þórsarar létu kné fylgja kviði og voru sterkari á lokamínútunum.
Sanngjarn sigur Þórsara sem þarna kvittuðu fyrir hörmulegt tap gegn Njarðvík í 1. umferð Domino’s-deildarinnar.
40 mínútna maðurinn Ben Smith var bestur í liði Þórs með 27 stig. Darri Hilmarsson og Robert Diggs áttu einnig fínan leik, Darri með 16 stig og 9 fráköst og Diggs með 14 stig og 13 fráköst. Baldur Þór Ragnarsson skoraði 8 stig, Guðmundur Jónsson 6, Emil Karel Einarsson 3 og Grétar Ingi Erlendsson 2.