Þór Þorlákshöfn mun mæta KR, fyrrum lærisveinum Benedikts Guðmundssonar þjálfara, í 8-liða úrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta. Þór lagði Skallagrím á útivelli í kvöld, 96-109.
Fyrri hálfleikur var stórskemmtilegur þar sem bæði lið lögðu allt í sölurnar. Þórsarar leiddu 23-24 að loknum 1. leikhluta en heimamenn komust yfir í 2. leikhluta, 41-34. Þórsarar áttu hins vegar frábæran endasprett í 2. leikhluta og leiddu 46-49 í sjoppuhléinu.
Baráttan var áfram mikil í síðari hálfleik en þegar leið á leikinn voru Þórsarar komnir með þægilega stöðu í bílstjórasætinu, en Skallarnir voru aldrei langt undan. Staðan var 70-75 þegar síðasti fjórðungurinn hófst og í honum náðu Þórsarar að sigla heim með fullfermi stiga.
Annan leikinn í röð var Guðmundur Jónsson stigahæstur með 29 stig, Benjamin Smith skoraði 27 og David Jackson 26. Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 8, Emil Karel Einarsson 6 og Darrell Flake 6, Grétar Ingi Erlendsson 5 og Halldór Garðar Hermannsson 2.
Úrslitakeppnin hefst næstkomandi fimmtudag, þann 21. mars, og þá koma KR-ingar í heimsókn í Icelandic Glacial-höllina í Þorlákshöfn.