Þórsarar voru nálægt því að leggja Stjörnuna á útivelli í Domino's-deild karla í körfubolta þegar liðin mættust í Garðabæ í kvöld. Stjarnan marði sigur í lokin eftir jafnan slag.
Fyrri hálfleikur var jafn, Stjörnumenn höfðu frumkvæðið lengst af, en Þórsarar önduðu ofan í hálsmálið á þeim allan tímann. Staðan var 26-18 að loknum 1. leikhluta og Stjarnan hélt forskotinu áfram inn í 2. leikhlutann. Þór minnkaði muninn í tvö stig, 41-39, áður en hálfleiksflautið gall.
Þórsarar mættu ákveðnir inn í síðari hálfleikinn og komust fljótlega yfir. Munurinn var þó lítill og Þór hafði þriggja stiga forystu, 60-63, þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Á lokakaflanum náði Þór mest átta stiga forskoti en heimamenn kláruðu leikinn með öflugu áhlaupi og sneru leiknum sér í vil. Lokatölur urðu 85-79.
Vincent Sanford var stigahæstur Þórsara með 23 stig, Nemanja Sovic skoraði 19 stig og tók 14 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson skoraði 16, Þorsteinn Már Ragnarsson 6, Grétar Ingi Erlendsson, Oddur Ólafsson og Emil Karel Einarsson 4 og Baldur Þór Ragnarsson 3.
Þór er nú í 4. sæti deildarinnar með átta stig.