Eftir jafnan leik náðu Þórsarar að knýja fram sigur á ÍR á stuttum kafla í 4. leikhluta þegar liðin mættust í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 86-94.
Jafnræði var með liðunum í 1. leikhluta og munurinn aldrei meiri en þrjú stig. ÍR leiddi eftir tiu mínútur, 23-20. Það sama var uppi á teningnum í 2. leikhluta þar sem ÍR jók forskot sitt um eitt stig og staðan var 44-40 í hálfleik. Þórsarar hefðu þó getað gert betur, sérstaklega á vítalínunni en tíu af fimmtán vítum fóru í súginn hjá Þór í fyrri hálfleik.
ÍR-ingar náðu sjö stiga forskoti í upphafi 3. leikhluta en Þórsarar voru fljótir að éta það upp og gott betur. Liðin skiptust á um að hafa forystuna og þristunum rigndi á þessum tíma en Þór var með forystuna þegar síðasti fjórðungurinn hófst, 70-71.
Þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðasta leikhlutanum var staðan 79-79 en þá náðu Þórsarar 12-2 leikkafla og gerðu út um leikinn. Staðan var 81-91 þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir af leiknum og Þórsarar sigldu sigrinum örugglega í höfn á lokakaflanum.
Darrin Govens var stigahæstur Þórsara með 20 stig, Darri Hilmarsson skoraði 16, Marco Latinovic 15 og þeir Michael Ringgold og Guðmundur Jónsson voru báðir með 14 stig.