Þórsarar hafa unnið alla leiki sína í Domino's-deild karla í körfubolta en í kvöld lögðu þeir KFÍ í háspennuleik á Ísafirði. Lokatölur voru 98-100 og kom sigurkarfan þegar ein sekúnda var eftir af leiknum.
Þór byrjaði betur og komst í 8-12 en lokamínútur 1. leikhluta voru slakar hjá Þórsurum og KFÍ sneri leiknum sér í vil, 21-18.
Heimamenn voru skrefinu á undan framan af 2. leikhluta en Þórsarar tóku síðustu tvær mínútur fyrri hálfleiks með trompi þar sem 2-14 áhlaup skilaði þeim forystunni í hálfleik, 44-46.
Þriðji leikhlutinn var kaflaskiptur en þegar leið að lokum hans skoruðu Þórsarar átta stig í röð og náðu sjö stiga forskoti sem þeir héldu út leikhlutann.
Síðasti fjórðungurinn var hrikalega spennandi þar sem KFÍ vann upp muninn strax í upphafi og eftir það skiptust liðin á um að halda forystunni.
KFÍ komst þremur stigum yfir þegar nítján sekúndur voru eftir af leiknum, 98-95 en Nemanja Sovic geystist þá upp völlinn og jafnaði fyrir Þór sex sekúndum seinna.
KFÍ lagði upp í lokasóknina með þrettán sekúndur á klukkunni en Mike Cook náði að stela boltanum, hlaupa fram og leggja boltann í körfuna þegar ein sekúnda var eftir. Sigur í höfn!
Cook var stigahæstur hjá Þór með 37 stig og 10 fráköst en Sovic var enginn eftirbátur hans, með 36 stig og 13 fráköst.
Samtals skiluðu þeir framlagi upp á 82 af 106 framlagsstigum Þórsliðsins. Baldur Þór Ragnarsson skoraði 8 stig, Þorsteinn bróðir hans 7, eins og Tómas Heiðar Tómasson og Ragnar Nathanaelsson skoraði 5 stig.