Þór sigraði Njarðvík, 89-84, í lokaumferð Domino’s-deildar karla í körfubolta í kvöld. Þórsarar mæta Tindastóli í 8-liða úrslitum.
Þórsarar voru skrefinu á eftir Njarðvík framan af leiknum í kvöld. Staðan var 19-25 að loknum 1. leikhluta og munurinn hélst svipaður fram að leikhléi, 41-46.
Þórsliðið tók hins vegar góða rispu í 3. leikhluta og komst yfir um miðjan leikhlutann en þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 71-63. Lokaleikhlutinn var spennandi en Þórsarar voru skrefinu á undan allan tímann lengst af.
Njarðvík minnkaði muninn í tvö stig, 84-82, þegar tvær og hálf mínúta voru eftir en Þór var sterkari á lokasprettinum og sigraði með fimm stiga mun.
Tómas Tómasson skoraði 24 stig og tók 10 fráköst fyrir Þór, Nemanja Sovic skoraði 18, Grétar Ingi Erlendsson 16, Darrin Govens 11, auk þess sem hann tók 8 fráköst og sendi 12 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson skoraði 11 stig og þeir Baldur Ragnarsson og Halldór Hermannsson og Oddur Ólafsson skoruðu allir 3 stig.
Fyrsti leikdagur 8-liða úrslitanna verður fimmtudagurinn 19. mars en þá heimsækir Þór Tindastól á Sauðárkrók.
Í hinum viðureignunum mætast KR og Grindavík, Haukar og Keflavík auk þess sem Njarðvík mætir Stjörnunni.