Þór vann góðan sigur á KFÍ í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld, 87-79. Grunnurinn að sigrinum var lagður með góðum fyrri hálfleik.
Þórsarar voru ekkert að tvínóna við hlutina, skoruðu fyrstu tólf stig leiksins og leiddu 15-6 þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar. Gestirnir minnkuðu muninn í sjö stig í 1. leikhluta en Þórsarar bættu í og leiddu 27-14 að tíu mínútum liðnum.
Þór jók muninn jafnt og þétt í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 55-37 og allt stefndi í öruggan sigur Þórsara.
Gestirnir voru hins vegar ekki sammála þessu mati áhorfenda og eftir að David Jackson hafði hafið seinni hálfleikinn á troðslu náðu Ísfirðingar 2-13 áhlaupi og annarri 2-10 skorpu svo munurinn var kominn niður í fimm stig, 65-60, í upphafi 4. leikhluta.
Þórsarar hertu þá tökin aftur og héldu gestunum í hæfilegri fjarlægð það sem eftir lifði leiks.
David Jackson var stigahæstur Þórsara með 30 stig, Benjamin Smith skoraði 22, Darrell Flake 10 auk 12 frákasta, Darri Hilmarsson skoraði 9 stig, Guðmundur Jónsson 8, Grétar Ingi Erlendsson 6 og Baldur Þór Ragnarsson 2.
Þór er í 3. sæti deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir og leika næst gegn Fjölni á útivelli á sunnudagskvöldið.