Þór Þorlákshöfn sigraði lið ÍR á útivelli í kvöld í Dominos-deildinni í körfubolta. Eins og fyrsti leikur Þórs fór þessi í framlengingu, en í þetta skiptið sigruðu Þórsarar.
Það var jafnt á öllum tölum í Breiðholtinu í kvöld og gríðarleg spenna allt til loka. Eftir fyrri hálfleikinn var staðan 42-45 fyrir gestina frá Þorlákshöfn.
„Þetta var svipað og í fyrsta leiknum gegn Njarðvík,“ sagði Benedikt Guðmundsson í samtali við Sunnlenska eftir leik. „ÍR er eitt af þessu 6-7 liðum í deildinni sem eru góð og ég er því ánægður að hafa unnið þennan leik.“
Heimamenn voru komnir með tveggja stiga forystu eftir þriðja leikhluta. Þór náði hins vegar að komast yfir í þeim fjórða og þegar fjórar sekúndur voru eftir var staðan 78-81 fyrir Þór.
ÍR var með boltann og náði á ótrúlegan hátt að jafna leikinn með þriggja stiga körfu. Því þurfti að framlengja.
Heimamenn byrjuðu betur í framlengingunni og skoruðu fjögur fyrstu stigin. Eftir það komu átta stig í röð frá Þórsliðinu og þá forystu létu þeir ekki af hendi.
Mestu munaði um það að Þórsarar hittu úr öllum sex vítaskotum sínum í framlengingunni. „Það munur svo miklu um það að setja niður vítin í svona jöfnum leikjum,“ sagði þjálfarinn.
Þórsarar sigruðu leikinn með þremur stigum, 92-95.
„Það var nauðsynlegt að ná að vinna þennan leik eftir að hafa tapað þeim fyrsta eftir framlengingu. Það hefði verið hræðilegt að tapa öðrum leik þannig,“ sagði Benedikt sem var einnig ánægður með stuðning Græna drekans í kvöld.
„Ég held að það hafi verið fleiri Þórsarar en ÍR-ingar á vellinum og það leyndi sér ekki,“ sagði Benedikt að lokum.
Ben Smith var stigahæstur Þórsara með 22 stig, Robert Diggs kom næstur með 18 stig, Guðmundur Jónsson skoraði 16, Darrell Flake 12, Darri Hilmarsson 11 og Grétar Erlendsson og Baldur Ragnarsson skoruðu átta stig hvor.