Þór Þorlákshöfn vann mikilvægan sigur á Haukum á heimavelli í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 93:85.
Þórsarar skoruðu grimmt í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 30-24. Það gekk hins vegar lítið upp hjá heimamönnum í 2. leikhluta og Hauka komust yfir, leiddu 41-43 í leikhléi.
Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi. Haukar höfðu frumkvæðið framan af 3. leikhluta en undir lok hans raðaði Emil Karel Einarsson niður körfunum og staðan var 69-67 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar voru Þórsarar skrefinu á undan allan tímann og voru komnir með níu stiga forskot undir lokin.
Emil Karel var bestur í liði Þórs í kvöld, raðaði niður 28 stigum, og DJ Balantine II átti einnig ágætan leik.
Tölfræði Þórs: Emil Karel Einarsson 28, DJ Balentine II 17/6 fráköst/5 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 16/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 14/8 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 13, Magnús Breki Þórðason 4, Þorsteinn Már Ragnarsson 1, Óli Ragnar Alexandersson 4 fráköst/6 stoðsendingar.