Þórsarar unnu góðan sigur á Grindavík í kaflaskiptum leik í Domino's-deild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur urðu 97-88.
Fyrsti leikhlutinn var jafn en um miðjan 2. leikhluta gerðu Grindvíkingar 2-10 áhlaup og leiddu í kjölfarið í leikhléi, 38-45.
Þórsarar mættu hins vegar vel gíraðir inn í seinni hálfleikinn og neituðu Grindvíkingum ítrekað um körfur. Gestirnir skoruðu aðeins tólf stig í 3. leikhluta gegn 28 stigum Þórs og staðan var því 66-57 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
Síðasti leikhlutinn var hin besta skemmtun en liðin kepptust við að skora og fátt var um varnir. Grindvíkingum tókst ekki að vinna niður forskotið og Þórsarar sigruðu að lokum með átta stiga mun.
Darrin Govens var stigahæstur Þórsara með 24 stig, Tómas Tómasson skoraði 21, Emil Karel Einarsson 17, Nemanja Sovic 16, Grétar Ingi Erlendsson 10, Oddur Ólafsson 7 og Baldur Þór Ragnarsson 2. Grétar var frákastahæstur Þórsara með 10 fráköst.
Þór er í 7. sæti deildarinnar með 16 stig.