Þór Þorlákshöfn tapaði 95-90 þegar liðið heimsótti botnlið Skallagrím í Borgarnes í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.
Skallagrímur hafði frumkvæðið í 1. leikhluta en Þórsarar luku fyrri hálfleiknum á 4-19 áhlaupi og leiddu því í hálfleik, 42-45.
Jafnræði var með liðunum í 3. leikhluta en Skallagrímur skoraði þrettán stig í röð undir lok 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða og komust yfir aftur, 70-65.
Við tóku æsispennandi lokamínútur en Skallagrímur leiddi 89-87 þegar ein mínúta var eftir á klukkunni. Darrin Govens minnkaði muninn í 91-90 þegar átta sekúndur voru eftir en Skallagrímur var kominn í bónus og kláraði leikinn af öryggi á vítalínunni.
Darrin Govens átti stórleik fyrir Þór og var stigahæstur með 41 stig og Grétar Ingi Erlendsson skoraði 16 stig og tók 11 fráköst. Emil Karel Einarsson skoraði 10 stig, Tómas Tómasson 9, Þorsteinn Már Ragnarsson 5, Nemanja Sovic 4, Baldur Þór Ragnarsson 3 og Oddur Ólafsson 2.
Þór er í 6. sæti deildarinnar með 18 stig en Skallagrímur er áfram á botninum með 8 stig, eins og ÍR og Fjölnir.