Þór Þ. tapaði fyrir botnliði Fjölnis í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld, 92-84. Fjölnismenn hefðu mögulega fallið ef þeir hefðu tapað í kvöld.
Þórsarar höfðu undirtökin í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 46-52. Í upphafi 3. leikhluta náði Þór 10 stiga forskoti en heimamenn náðu að jafna undir lok leikhlutans og þegar sá fjórði hófst var staðan 67-68.
Liðin skiptust á um að hafa forystuna í upphafi 4. leikhluta en í stöðunni 74-76 gerðu Fjölnismenn 16-4 áhlaup og staðan var orðin 90-80 þegar rúmlega mínúta var eftir af leiknum.
Grétar Ingi Erlendsson var bestur hjá Þórsurum í kvöld, skoraði 27 stig, Darrin Govens skoraði 21, Tómas Tómasson 16, Emil Karel Einarsson 10, Nemanja Sovic 6 og Oddur Ólafsson 4.
Þór er í 7. sæti deildarinnar með 20 stig og mætir næst KR á útivelli á sunnudagskvöld en eftir leikinn munu KR-ingar fá deildarmeistarabikarinn afhentan.