Þór tapaði í tvíframlengdum leik

Þór Þorlákshöfn tapaði í tvíframlengdum leik gegn ÍR í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Seljaskóla voru 110-107.

ÍR-ingar byrjuðu betur í leiknum og leiddu 18-15 að loknum 1. leikhluta.

Þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af 2. leikhluta tóku Þórsarar loksins við sér og komust fljótlega yfir, 28-30, en staðan var 35-41 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var kaflaskiptur en Þórsarar náðu mest tólf stiga forystu í upphafi hans, 37-49. Þá minnkuðu ÍR-ingar muninn niður í fjögur stig áður en Þór tók á annan sprett. Þannig skiptust liðin á áhlaupum í 3. leikhluta en Þór hélt forystunni og leiddi 59-65 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

ÍR-ingar mættu brattir inn í 4. leikhluta og söxuðu forskot Þórsara niður. Þeir komust yfir, 77-75, þegar tvær og hálf mínútur voru eftir af leiknum en Þórsarar svöruðu fyrir sig og leiddu 80-82 þegar níu sekúndur voru eftir. Þá fór Darri Hilmarsson á vítapunktinn en klikkaði á fyrra skotinu og ÍR fékk boltann í stöðunni 80-83 þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum.

ÍR-ingar brunuðu upp þar sem Guðmundur Jónsson braut á Isaac Miles í þriggja stiga skoti þegar tvær sekúndur voru eftir. Miles fór á vítapunktinn og jafnaði með því að setja niður öll þrjú vítaskotin.

Þór náði sex stiga forskoti þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrri framlengingunni en ÍR-ingar jöfnuðu af harðfylgi og hefðu getað náð sigrinum á lokasekúndunum þegar margumræddur Miles skoraði tvö stig og fékk víti að auki – en nú klikkaði kappinn og því var framlengt aftur.

Þórsarar náðu fimm stiga forystu í seinni framlengingunni, 99-104 þegar þrjár mínútur voru eftir en eftir það gekk ekkert upp Þórsurum og ÍR-ingar gengu á lagið og lönduðu sigri.

Ben Curtis var stigahæstur Þórsara með 31 stig, Robert Diggs skoraði 29 og Darrell Flake 14.

Þrátt fyrir tapið eru Þórsarar í toppsæti riðilsins með 8 stig en ÍR kemur næst með 6 stig þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni.

Fyrri greinJón Daði kallaður inn í A-landsliðið
Næsta greinBúið í einni íbúð í blokkinni